Erlent

50 myrtir í skotárásinni í Orlando

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar fyrir utan skemmtistaðinn Pulse.
Lögregluþjónar fyrir utan skemmtistaðinn Pulse. Vísir/Getty
Borgarstjóri Orlando segir að fimmtíu hafi látið lífið í skotárásinni í Orlando í í Bandaríkjunum í nótt. 53 eru sagðir særðir og þeirra á meðal eru margir í lífshættulegu ástandi. Búið er að bera kennsl á árásarmanninn sem er hinn 29 ára gamli Omar Mateen. Hann er talinn vera öfgasinnaður islamisti og sagður hafa verið aðdáandi Íslamska ríkisins.

Um er að ræða mannskæðustu skotárás í sögu Bandaríkjanna. FBI segir að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í bæði Orlando og fylkinu öllu, Flórída.

Hér má sjá yfirlit yfir mannskæðustu skotárásir Bandaríkjanna.Vísir/GraphicNews
Mateen er bandarískur ríkisborgari, en foreldrar hans eru innflytjendur frá Afganistan. Mateen bjó sjálfur í Fort Pierce í Flórída. Lögregla hefur staðfest þessar fregnir en samkvæmt heimildum CBS var hann ekki á sakaskrá, né á eftirlitslista yfir mögulega hryðjuverkamenn.

Mateen er sagður hafa gengið inn á skemmtistað LGBT fólks, sem heitir Pulse, í Orlando klukkan sex í morgun að íslenskum tíma, klukkan tvö að staðartíma, og hafið þar skothríð. Hann var vopnaður árásarriffli og skammbyssu. Lögregluþjónn skammt frá skiptist á skotum við Mateen fyrir utan Pulse, en Muteen fór aftur þar inn og tók gísla.

Um þremur tímum seinna brutu lögregluþjónar sér leið í gegnum vegg hússins og björguðu þar um 30 manns. Sérsveitarmenn sem ruddu sér leið inn á skemmtistaðinn skutu Mateen til bana. Einn lögregluþjónn særðist í skotbardaganum en skot fór í hjálm hans.

Samkvæmt erlendum miðlum eru vélmenni nú notuð til að ganga úr skugga um að Mateen hafi ekki komið sprengjum fyrir á skemmtistaðnum.

Þetta er önnur skotárásin í Orlandi á tveimur dögum. Á föstudagskvöldið var ung söngkona, Christina Grimmie, skotin til bana skömu eftir tónleika. Árásirnar tengjast ekki.


Tengdar fréttir

Margir látnir í Orlando

Árásarmaðurinn var vopnaður riffli og skammbyssu, en óttast er að hann hafi einnig verið með sprengju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×