Erlent

Tólf grunaðir hryðjuverkamenn handteknir í Brussel

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Lögregluþjónar að störfum í kjölfar árásanna í Brussel í mars.
Lögregluþjónar að störfum í kjölfar árásanna í Brussel í mars. Vísir/EPA
Belgíska lögreglan handtók í nótt tólf manns í umfangsmiklum aðgerðum. Grunur leikur á að fólkið hafi verið að skipuleggja hryðjuverkaárásir þar í landi.

Aðeins eru þrír mánuðir síðan að 32 létust í hryðjuverkaárásum í Brussel sem gerðar voru bæði á alþjóðaflugvellinum og við neðanjarðarlestarstöð. Lögreglan yfirheyrði fjörutíu manns á meðan á aðgerðunum stóð en þær hófust í gærkvöldi og stóðu fram eftir nóttu. Þá voru framkvæmdar húsleitir á á annað hundrað stöðum í heimahúsum, geymslum og bílskúrum. 

Belgíska lögreglan fékk nýlega ábendingu um að nýir hryðjuverkahópar hefðu komið sér fyrir í Brussel og að þeir væru að undirbúa árásir. Þá greina fjölmiðlar þar í landi frá því að talið sé að þeir hafi ætlað að framkvæma árásir á meðan að belgíska karlalandsliðið í knattspyrnu spilar leik á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi.

Mikill viðbúnaður er enn í Belgíu eftir árásirnar í mars og er enn í gildi næsthæsta viðvörunarstig vegna hryðjuverkaógnar þar í landi. Belgíska lögreglan hefur lítið viljað tjá sig um handtökurnar í nótt en fólkið verður að öllum líkindum leitt fyrir dómara í dag sem úrskurðar um hvort það verði sett í gæsluvarðhald.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.