Erlent

ISIS kallar eftir hryðjuverkaárásum á Vesturveldin í næsta mánuði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skilaboð sem sögð eru vera frá talsmanni ISIS kalla eftir því að stuðningsmenn ISIS fremji hryðjuverk í föstumánuði múslima sem hefst í byrjun júní.
Skilaboð sem sögð eru vera frá talsmanni ISIS kalla eftir því að stuðningsmenn ISIS fremji hryðjuverk í föstumánuði múslima sem hefst í byrjun júní. Vísir/Getty
Opinber talsmaður ISIS kallar eftir því að fylgismenn hryðjuverkasamtakanna láti til skarar skríða og fremji hryðjuverk í Bandaríkjunum og Evrópu á meðan Ramadan, föstumánuður múslima, stendur yfir en hann hefst 6. júní næstkomandi.

Skilaboðin eru sögð koma frá Abu Muhammad al-Adnani, háttsettum liðsmanni ISIS sem gjarnan er nefndur talsmaður samtakanna. Skilaboðunum var dreift á samfélagsmiðlinum Twitter en samkvæmt frétt Reuters hefur ekki takist að sannreyna hvort að skilaboðin komi í raun og veru frá ISIS. Þó er bent á að skilaboðunum hafi verið dreift á Twitter af þeim sem áður hafa dreift yfirlýsingum frá ISIS.

Í skilaboðunum eru stuðningsmenn ISIS í Bandaríkjunum og Evrópu hvattir til þess að láta til skarar skríða gegn yfirvöldum og almennum borgum fremur en að freista þess að ganga til liðs við ISIS í Sýrlandi en þrengt hefur að yfirráðarsvæði ISIS þar í landi sem og í Írak eftir harðar loftárásir Bandaríkjanna og fleiri ríkja á skotmörk tengd ISIS.

ISIS lýstu yfir ábyrgð sinni á hinum mannskæðu hryðjuverkunum í París á síðasta ári og Brussel á þessu ári og óttast er að innan Evrópu leynist hryðjuverkasellur á borð við þær sem frömdu árásirnar. Hefur öryggisgæsla á EM í knattspyrnu í sumar til að mynda verið hert gríðarlega vegna ótta um að gerðar verði hryðjuverkaárásir á meðan keppninni stendur.

Í skilaboðinum er ekki minnst á flugvél EgyptAir sem hrapaði í Miðjarðarhafið. Yfirvöld í Egyptalandi segjast gruna að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Engin samtök hafa hins vegar lýst yfir ábyrgð. Enn er leitað að flugritum vélarinnar svo varpa megi ljósi á það hvað hafi grandað vélinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×