Erlent

Sýrlenskar hersveitir nálgast höfuðborg ISIS

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sýrlenskar hersveitir hafa nú sótt inn í Raqqa-hérað með stuðningi loftárása rússneskar hersins. Nálgast þær óðum samnefnda borg sem gjarnan er nefnd höfuðborg ISIS.

ISIS náði borginni á sitt vald árið 2013 úr höndum stjórnarandstæðinga í Sýrlandi. Varð Raqqa fljótlega miðstöð starfsemi ISIS.

Sýrlenski herinn vinnur nú að því að tryggja sér aðgang að aðalveginum sem liggur frá Aleppo til Raqqa. Þá hafa harðir bardagar farið fram í nágrenni Tabqa þar sem mikilvæg flugstöð, sem ISIS náði valdi yfir árið 2014, er staðsett.

Ljóst er að mjög er nú sótt að ISIS úr öllum áttum en Kúrdar, með stuðningi Bandaríkjanna, hafa einnig sótt að Raqqa. Þá hafa írakskar hersveitir sótt hart að Fallujah í Írak, einu helsta vígi ISIS þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×