Íslenski boltinn

Davíð Þór gæti spilað fyrir Færeyjar: Amma yrði mjög sátt með mig

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Davíð Þór og Bjarni Þór Viðarssynir gætu spilað landsleik fyrir Færeyjar.
Davíð Þór og Bjarni Þór Viðarssynir gætu spilað landsleik fyrir Færeyjar. vísir/eyþór
"Þetta byrjaði sem grín hjá mér og Gunna markverði þegar hann kom í FH," segir Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, við Vísi um möguleikann að spila fyrir færeyska landsliðið en hann er að hluta til Færeyingur.

Færeyski fréttavefurinn if.fo fjallaði um málið í gær en þar kom fram að þjálfari færeyska landsliðsins er búinn að koma hingað til lands og horfa Davíð Þór og bróðir hans, Bjarna Þór, spila með FH.

"Langafi minn er færeyskur og það hafa alltaf verið frekar mikil tengsl til Færeyja. Mamma pabba er hálf færeysk og því hafa verið mikil tengsl til Færeyja hjá föðurfjölskyldunni til Færeyja," sagði Davíð Þór

Þessi kraftmikli miðjumaður á að baki átta landsleiki fyrir Ísland en hann átta sig á að þeir verða ekki fleiri. Hann gæti glatt ömmu sína mikið með að spila fyrir Færeyjar.

"Ég átta mig á því að þessir fáu vináttulandsleikir sem ég spilaði fyrir Ísland verði ekki fleiri. Ég er það raunsær. Það er ósköp einfalt," segir Davíð og hlær.

"Ef þetta verður alvöru möguleiki og maður ákveður að slá til þá veit ég að amma mín yrði mjög sátt með mig. Það getur vel verið að þetta verði að veruleika."

Davíð er búinn að ræða við færeyska landsliðsþjálfarann en hann og bróðir hans eiga enn eftir að taka ákvörðun um hvort þeir slái til.

"Ég hitti þjálfarann aðeins þegar hann kom að horfa á leik um daginn. Þetta er í einhverju ferli en það á algjörelga eftir að koma í ljós hvort þetta sé hægt, í öðru lagi hvort þetta hentar mér og í þriðja lagi hvort ég sé nógu góður fyrir færeyska liðið," segir Davíð Þór.

"Ég átta mig á því að íslenska landsliðið er það sterkt að ég spila ekki fleiri leiki fyrir það. Þetta er ekki vegna þess að ég er svo fúll yfir að vera ekki valinn í EM-hópinn," bætir miðjumaðurinn við skælbrosandi.

"Það væri gaman að fá aðeins að tætast inn á miðjunni hjá Færeyjum og eyðileggja fyrir mannskapnum ef það er mögulegt," segir Davíð Þór Viðarsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×