Enski boltinn

Leicester á helming þeirra leikmanna sem eru tilnefndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Leicester City tóku við enska bikarnum um síðustu helgi.
Leikmenn Leicester City tóku við enska bikarnum um síðustu helgi. Vísir/Getty
Leicester City hefur þegar spilað einn leik sem Englandsmeistari og á möguleika á því að vinna ensku deildina með meira en tíu stiga mun.

Það þarf því ekki að koma mörgum á óvart að yfirburðarlið ensku úrvalsdeildarinnar eigi marga leikmenn í hópi þeirra sem eru tilnefndir sem leikmenn ársins í deildinni.

Enska úrvalsdeildin hefur nú gefið út tíu manna listann yfir þá sem eru tilnefndir sem leikmenn ársins. Aðeins fjögur lið eiga leikmenn sem eru tilnefndir og enginn leikmaður Manchester City, Manchester United eða Liverpool kemst á listann.

Fimm af þessum tíu leikmönnum spila með Leicester City en það eru sóknarmennirnir Riyad Mahrez og Jamie Vardy, miðjumaðurinn N'Golo Kante, varnarmaðurinn Wes Morgan og markvörðurinn Kasper Schmeichel.

Hinir fimm á listanum eru þeir Harry Kane, Dele Alli og Toby Alderweireld hjá Tottenham og þeir Mesut Özil hjá Arsenal og Dimitri Payet hjá West Ham.

Harry Kane er markahæsti leikmaður deildarinnar með 25 mörk en hann hefur skorað einu marki meira en þeir Jamie Vardy og Sergio Aguero.

Leikmenn deildarinnar kusu Riyad Mahrez bestan en hann er fimmti markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar með 17 mörk auk þess að leggja upp ellefu mörk fyrir félaga sína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×