Enski boltinn

Ranieri valinn knattspyrnustjóri ársins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Claudio Ranieri með bikarinn góða ásamt fyrirliðanum Wes Morgan.
Claudio Ranieri með bikarinn góða ásamt fyrirliðanum Wes Morgan. Vísir/Getty
Claudio Ranieri, stjóri Englandsmeistara Leicester, hefur verið valinn knattspyrnustjóri ársins af samtökum knattspyrnustjóra í Englandi.

Valið kemur fáum á óvart en Ranieri náði ótrúlegum árangri er hann stýrði Leicester afar óvænt til sigurs í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hlaut útnefninguna árin 2002 og 2004 en hann og Ranieri eru einu knattspyrnustjórarnir sem ekki eru fæddir á Bretlandseyjum sem hlotið hafa verðlauninn.

Eddie Howe hlaut verðlaunin í fyrra fyrir að koma Bournemouth upp í ensku úrvalsdeildina en ekki Jose Mourinho sem gerði Chelsea að Englandsmeisturum í fyrra.

Ranieri var þrívegis útnefndur þjálfari mánaðarins á nýliðnu tímabili og var í síðasta mánuði valinn þjálfari ársins í heimalandi sínu, Ítalíu.

Chris Hughton, stjóri Brighton, var valinn stjóri ársins í B-deildinni en lið hans féll úr leik í umspili deildarinnar í gær eftir 3-1 samanlagt tap gegn Sheffield Wednesday.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×