Enski boltinn

Vardy: Ég er ánægður hjá Leicester

Tómas Þór Þórðarson skrifar
vísir/getty
Jamie Vardy, nýkrýndur Englandsmeistari með Leicester, er ekkert að horfa í kringum sig og bíða eftir tilboði frá einhverju stórliði í sumar.

Vardy hefur átt frábæra leiktíð og er sem stendur næstmarkahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar ásamt Sergio Agüero með 24 mörk.

„Ég er nýbúinn að vinna deildina og spila í Meistaradeildinni á næstu leiktíð,“ sagði Vardy í dag við opnun V9-knattspyrnuskólans sem hann stendur fyrir.

„Ég er ánægður hérna. Eins og við höfum sagt áður erum við eins og bræður. Við erum ekki bara vinir á æfingasvæðinu og hittumst svo daginn eftir. Við erum alltaf að tala saman og fara út að borða saman. Andinn í búningsklefanum er það sem skilaði okkur þessum árangri.“

Leicester þarf að styrkja hópinn fyrir næsta tímabil enda mun liðið fá enn meiri samkeppni um Englandsmeistaratitilinn auk þess sem það verður í Meistaradeildinni.

„Það verður talað um hina og þessa í allt sumar. Að mínu mati, miðað við hvað hópurinn er sterkur innan sem utan vallar, er best að halda honum eins lítið breyttum og hægt er,“ sagði Jamie Vardy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×