Erlent

Trump tapaði í Ohio - Rubio er hættur

Vísir/AP
Baráttan um útnefningu forsetaefna í Bandaríkjunum heldur áfram þrátt fyrir viðburðarríkan gærdag þar sem kosið var í fjölda ríkja. 

Auðkýfingurinn Donald Trump fór með sigur af hólmi í ríkjunum Illinois, Norður Karólínu og einnig í Flórída. Hann beið hinsvegar ósigur í Ohio fyrir John Kasich, sem er reyndar ríkisstjóri Ohio og því vel þekktur þar á bæ, enda var þetta fyrsti sigur hans í forkosningunum hingað til. Ósigur Trump í Ohio þýðir að spennan heldur áfram hjá Repúblikönum en hefði hann haft betur þar hefði hann svo gott sem tryggt sér útnefninguna. 

Sigur Trump í Flórída þýddi að Marco Rubio, sem lengst af hefur verið talinn á meðal tveggja helstu keppinauta Trumps, hefur játað sig sigraðan og dregið sig út. Flórída er heimaríki hans og sigur þar var lífsnauðsynlegur upp á framhaldið.

Hjá Demókrötum eykst bilið enn á milli Hillary Clinton og Bernie Sanders og virðist fátt geta komið í veg fyrir að hún hreppi tilnefningu flokks síns. Clinton fór með sigur af hólmi á fjórum stöðum í gær, í Flórída, Ohio, Illinois og Norður Karólínu og virðist fátt geta stöðvað hana.

Enn á eftir að birta tölur í Missouri hjá bæði Demókrötum og Repúblikönum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×