Enski boltinn

Brendan Rodgers: Eigendur Liverpool búast við að Klopp geri liðið að meisturum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp og ungur aðdáandi.
Jürgen Klopp og ungur aðdáandi. Vísir/Getty
Brendan Rodgers, fyrrum knattspyrnustjóri Liverpool og forveri Jürgen Klopp, segir að eigendur Liverpool geri kröfur um það í næstu framtíð að Liverpool verði Englandsmeistari.

Liverpool er eins og er í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar nú sextán stigum á eftir toppliði Leicester City.

„Þeir eru með mjög góðan stjóra í Jürgen Klopp. Það mun taka tíma að koma hans áherslum og aðferðum inn en hann er með nokkra mjög góða leikmenn í liðinu," sagði Brendan Rodgers í viðtali við Belfast Telegraph.

Liverpool rak Brendan Rodgers í október og Jürgen Klopp er þegar búinn að koma Liverpool í einn úrslitaleik en liðið tapaði fyrir Manchester City í vítakeppni í úrslitaleik enska deildabikarsins.

„Væntingarnar til hans eru að hann geri liðið að meisturum. Við vorum mjög nálægt því þegar ég var með liðið og augljóslega mun Jürgen Klopp trúa því að hann geti gert enn betur. Þess vegna gerðu eigendurnir þessa breytingu," sagði Brendan Rodgers.

„Þeim fannst þeir geta bætt liðið og það eina sem er betra en annað sætið er að vinna titilinn. Það mun hinsvegar taka tíma en ég er viss um að eigendurnir muni gefa honum þann tíma," sagði Rodgers.

Liverpool mætir Manchester United á morgun í sextán liða úrslitum Evrópudeildarinnar og Rodgers var einnig spurður út í þann leik.

„Þetta verður jafnt. Liverpool hefur náð góðum úrslitum að undanförnu og ætti að koma inn í fyrri leikinn með mikið sjálfstraust. United hefur það með sér að liðið hefur unnið báða leikina við Liverpool á leiktíðinni og þeir telja sig örugglega eiga góða möguleika líka. Þetta verður jafnt og spennandi," sagði Rodgers.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×