Enski boltinn

Benteke tryggði Liverpool þriðja sigurinn í röð | Sjáðu mörkin og rauða spjaldið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Benteke sýndi mikið öryggi á vítapunktinum.
Benteke sýndi mikið öryggi á vítapunktinum. Vísir/Getty
Christian Benteke tryggði Liverpool dramatískan 1-2 sigur á Crystal Palace í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Belginn kom inn á sem varamaður á 80. mínútu og á fjórðu mínútu í uppbótartíma braut Damien Delaney klaufalega á honum innan vítateigs og Andre Mariner, dómari leiksins, benti á punktinn.

Benteke tók spyrnuna sjálfur og skoraði af miklu öryggi og tryggði Liverpool öll stigin þrjú. Með sigrinum komust lærisveinar Jürgens Klopp upp í 7. sæti deildarinnar.

Á meðan Liverpool hefur unnið þrjá leiki í röð gengur ekkert hjá Palace sem hefur ekki fagnað sigri í deildinni síðan 19. desember á síðasta ári. Lærisveinar Alans Pardew eru í 15. sæti deildarinnar með 33 stig, níu stigum frá fallsæti.

Palace-menn voru í kjörstöðu til að vinna langþráðan sigur en köstuðu þeim möguleika frá sér í seinni hálfleik.

Joe Ledley kom Palace yfir með föstu skoti á 48. mínútu og eftir rúman klukkutíma fauk James Milner af velli þegar hann fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

En brottvísunin hleypti nýju lífi í lið Liverpool sem spilaði mun betur einum færri en þegar jafnt var í liðum.

Á 72. mínútu átti Alex McCarthy, markvörður Palace, skelfilegt útspark, beint á Roberto Firmino sem þakkaði pent fyrir sig og jafnaði metin í 1-1. Þetta var áttunda deildarmark Firminos en sjö þeirra hafa komið á árinu 2016.

Alberto Moreno var svo hársbreidd frá því koma Liverpool yfir en skot Spánverjans small í stönginni. Í uppbótartíma var svo komið að þætti Benteke eins og áður sagði.

Crystal Palace 1-0 Liverpool Milner sendur í sturtu Crystal Palace 1-1 Liverpool Crystal Palace 1-2 Liverpool



Fleiri fréttir

Sjá meira


×