Erlent

Þjóðverjar herða löggjöf í kjölfar árásanna í Köln

Bjarki Ármannsson skrifar
Lögregla í Köln hefur haft í nægu að snúast frá áramótum.
Lögregla í Köln hefur haft í nægu að snúast frá áramótum. Vísir/Getty
Yfirvöld í Þýskalandi segjast ætla að gera það auðveldara að vísa útlendingum sem brjóta af sér úr landi og draga til baka hæli til þeirra sem gerast sekir um kynferðisbrot. 

Áform þýskra stjórnvalda eru lögð fram í kjölfar hrottalegra árása á konur í borginni Köln á gamlárskvöld. Árásirnar hafa vakið óhug í Þýskalandi en enginn þeirra nítján sem grunaðir eru um þær er þýskur ríkisborgari.

Þjóðverjar tóku á móti rúmlega milljón hælisleitendum í fyrra og kenna öfgasamtök á borð við Pegida straumi flóttamanna inn í landið um árásirnar.

Sjá einnig: Íslendingur í Köln - „Fór heim þegar ég sá ástandið magnast upp“

Heiko Maas, dómsmálaráðherra Þýskalands, segir að markmiðið með fyrirhuguðu breytingunum sé að auðvelda framsal erlendra glæpamanna og að draga til baka veitt hæli í ákveðnum tilvikum. Hann leggur þó áherslu á það að ekki allir flóttamenn séu grunaðir glæpamenn.

Þá segir Maas að skilgreiningin á nauðgun samkvæmt þýskri löggjöf sé of þröng og hana þurfi að víkka. Lögregla í Köln segir að nærri helmingur þeirra 533 kæra sem lögreglu barst frá konum eftir árásirnar snúi að meintum kynferðisbrotum.


Tengdar fréttir

Ofbeldi gegn konum í Köln vekur mikla reiði

Lögreglan í Köln hefur viðurkennt margvísleg mistök í tengslum við kynferðisofbeldi sem tugir kvenna urðu fyrir á gamlársdag. Innanríkisráðherra Þýskalands krefst skýringa. Lögreglustjórinn segist ekki ætla að segja af sér.

Merkel vill allt upp á borðið

Rúmlega 30 manns handteknir í Köln vegna ólátanna á gamlárskvöld. Átján þeirra eru hælisleitendur. Lögreglustjóranum í Köln vikið úr embætti tímabundið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×