Erlent

Repúblikanir gagnrýna fangaskipti Bandaríkjanna og Íran

Birgir Olgeirsson skrifar
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Nokkrir af þeim frambjóðendum sem vonast eftir að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins hafa gagnrýnt stjórn Barack Obama Bandaríkjaforseta fyrir að hafa fangaskipti við yfirvöld í Íran. Fregnir bárust frá Bandaríkjunum í gær að yfirvöld þar í landi hefðu sleppt sjö Írönum úr haldi og í staðinn fengu fjórir bandarískir fangar í Íran frelsi.

Á meðal þessara frambjóðenda Repúblikanaflokksins er Marco Rubio sem sakar Obama-stjórnina um að hafa ekki gengið nógu hart á eftir skilyrðislausri lausn bandarísku fanganna. Rubio var á meðal tuttugu þingmanna sem skrifuðu John Kerry utanríkisráðherra bréf í fyrra þar sem þeir kröfðust þess að þessum föngum yrði sleppt.

Er það mat Repúblikana að Obama-stjórnin hefði aldrei átt að eiga þessi fangaskipti við Íran því það veikti stöðu Bandaríkjanna út á við. Telja þeir óvinaþjóðir eiga eftir að keppast við að ná Bandaríkjamönnum sem föngum svo þær geti samið um frelsi félaga sinna.

Á meðal þeirra sem gagnrýna þetta samkomulag eru Chris Christie, ríkisstjóri New Jersey, þingmaðurinn Ted Cruz og Donald Trump.

Trump setur til að mynda spurningarmerki við þessi fangaskipti í ljósi þess að þau áttu sér stað sama dag og Bandaríkjastjórn aflétti viðskiptaþvingunum á Íran ásamt Evrópusambandinu í gær. Var það gert vegna þess að yfirvöld í Íran höfðu staðið við samkomulag sem á að koma í veg fyrir þróun kjarnavopna þar í landi. Með þessu samkomulagi losnuðu eignir upp á milljarði dala í Íran og verður hægt að selja olíu sem unnin er í landinu um allan heim. John Kerry fagnaði þessi samkomulagi í gær ásamt utanríkismálastjóra Evrópusambandsins. Báðir voru þeir þeirrar skoðunar að heimurinn væri öruggari fyrir vikið. 

„Þeir fá sjö manneskjur og eru því að fá 150 milljarði dala plús sjö, og við fáum fjóra,“  var haft eftir Trump. Allir fögnuðu þeir þó frelsi Bandaríkjamannanna. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×