Þau skilaboð sem íslensk stjórnvöld hafa fengið frá Moskvu vegna viðskiptabannsins eru nær öll á sama veg, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Rússnesk stjórnvöld eigi erfitt með að sjá í gegnum fingur sér varðandi innflutning á íslenskum matvælum til Rússlands nema Ísland falli frá stuðningi við þvingunaraðgerðir ESB ríkja og vesturveldanna gagnvart Rússum.
Sem kunnugt er bættist Ísland á lista yfir ríki sem sæta viðskiptabanni hjá Rússum í síðustu viku en auk Íslands bættust við Albanía, Svartfjallaland, Liechtenstein og Úkraína. Þessi ríki styðja öll viðskiptaþvinganir ESB og Bandaríkjanna gagnvart Rússum.


Líklega enginn Íslendingur þekkir jafn vel til stjórnvalda í Moskvu og Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands. Að sögn aðstoðarmanns Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra hefur engin formleg ósk farið til forsetans um liðsinni í málinu enda er ekki hefð fyrir slíku. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Ólafur Ragnar áttu þó fund á fimmtudag á Bessastöðum og var þetta mál rætt þar.
Fréttastofan óskaði eftir viðtali við forsetann vegna málsins og beindi til hans eftirfarandi spurningum:
a) Hefur verið leitað til þín vegna málsins?
b) Hefur þú tök á að aðstoða við að verja íslenska hagsmuni vegna viðskiptabannsins?
c) Treystir þú þér til að meta, sem fyrrverandi fræðimaður í stjórnmálafræði og sérfræðingur um geopólitík, hvað það myndi þýða ef íslensk stjórnvöld færu þess á leit við Rússa að þeir endurskoðuðu bann á íslensk matvæli og eftir atvikum myndu draga til baka stuðning við viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum í ljósi þess hversu mikið tjón gagnaðgerðir Rússa hafa fyrir íslensk fyrirtæki?
d) Er ekki fýsilegt fyrir íslensk stjórnvöld að semja beint við Rússa um tilslakanir eða eftir atvikum draga stuðning við viðskiptaþvinganir gagnvart þeim til baka, með vitneskju ESB-ríkjanna, í ljósi þess hversu sérstaks eðlis (sui generis) málið er fyrir Ísland? Eins og fjármála- og efnahagsráðherra benti á í fréttum í gær snýst þetta aðallega um frystingu eigna Rússa og viðskiptabann með vopn. Hvorugt snertir Ísland á nokkurn hátt.
Þau svör fengust frá skrifstofu forsetans að hann myndi ekki veita viðtöl um málið að svö stöddu.