Margrét Lára, sem varð 29 ára í sumar, þekkir vel til á Hlíðarenda þar sem hún spilaði á árunum 2005-2008 og raðaði inn mörkunum. Hún á að baki 124 leiki í efstu deild og bikarkeppnum og hefur skorað í þeim 198 mörk.
Eyjamærin hefur spilað með kvennaliði Kristianstad frá árinu 2012 undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur. Hún spilaði einnig með liðinu á árunum 2009-2011 en var þar áður á mála hjá þýsku félögunum Duisburg og Turbine Potsdam. Hún varð Þýskalandsmeistari með Potsdam vorið 2012 en félagið er eitt það sterkasta í Evrópu.

Margrét Lára er markahæsti leikmaður A-landsliðs Íslands í knattspyrnu frá upphafi með 75 mörk í 102 leikjum. Þá hefur hún skorað 30 mörk í 43 leikjum með yngri landsliðum Íslands.
Ljóst er að liðsstyrkurinn fyrir Valskonur verður mikill en Hlíðarendastelpur höfnuðu í sjöunda sæti í Pepsi-deild kvenna síðastliðið sumar. Þær komust í undanúrslit bikarsins þar sem þær féllu úr leik gegn Selfossi.
Margrét Lára, sem er uppalin í Vestmannaeyjum, hefur þrívegis orðið Íslandsmeistari með Valskonum, einu sinni bikarmeistari og markahæsti leikmaður Íslandsmótsins alls fimm sinnum. Hún varð markahæst í sænsku deildinni árið 2011 ásamt hinni hollensku Manon Melis. Þá var hún útnefnd íþróttamaður ársins árið 2007.
Að neðan má sjá viðtal sem Margét Lára veitti Valur.is í kvöld.