Erlent

Enn kljást tyrkneskir hermenn við Kúrda

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Andstæðingar Receps Tayyips Erdogans, forseta Tyrklands, saka hann um að kljást við Kúrda í pólitískum tilgangi.
Andstæðingar Receps Tayyips Erdogans, forseta Tyrklands, saka hann um að kljást við Kúrda í pólitískum tilgangi. nordicphotos/afp
Átök Tyrkjahers við verkamannaflokk Kúrda (PKK) héldu áfram um helgina. Tyrkir og Kúrdar berjast við Íslamska ríkið en einnig innbyrðis.

Einn tyrkneskur hermaður féll í gær eftir skotbardaga í tyrknesku borginni Kars í norðausturhluta landsins. Þá féllu þrír aðfaranótt laugardags í borginni Daglica, nærri landamærum Tyrklands og Íraks, og einn almennur borgari féll um nóttina þegar hann varð fyrir skoti í bardaga hersins við Kúrda í suðausturhluta landsins.

Frá því Tyrkir fóru af fullum krafti í stríðið gegn Íslamska ríkinu og verkamannaflokki Kúrda hafa fjörutíu tyrkneskir hermenn fallið fyrir hendi Kúrda. Á sama tíma hafa um fjögur hundruð hermenn Kúrda fallið fyrir hendi Tyrkjahers, meirihlutinn í loftárásum.

Andstæðingar ríkisstjórnar forsetans Receps Tayyips Erdogans hafa sagt ríkisstjórnina nota átökin við Kúrda til að tryggja sér fylgi tyrkneskra þjóðernishyggjumanna til að lágmarka áhrif lýðræðisflokks Kúrda á Tyrkjaþingi.

Flokkur Erdogans, AK, hlaut hins vegar ekki meirihluta á þinginu í nýafstöðnum kosningum og hafa stjórnarmyndunarviðræður siglt í strand. Stjórnmálaskýrendum þykir líklegt að kosið verði aftur fljótlega. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×