Erlent

Þjóðarsorg lýst yfir í Nepal

guðsteinn bjarnason skrifar
Húsnæðislausir íbúar í Lapu leita sér skjóls.
Húsnæðislausir íbúar í Lapu leita sér skjóls. nordicphotos/AFP
Vaxandi reiði gætir meðal íbúa á hamfarasvæðunum í Nepal í garð stjórnvalda vegna þess hve illa hefur gengið að koma aðstoð til fólks. Þriggja daga þjóðarsorg var lýst yfir í gær.

Sushil Koirala forsætisráðherra segir þó stjórnvöld hafa brugðist við eins og um stríðsátök væri að ræða og gera allt sem í þeirra valdi standi til að koma nauðstöddum til hjálpar.

Hann segir að staðfest tala eftir jarðskjálftann mikla á laugardag geti farið upp í tíu þúsund þegar búið verður að kanna ástandið í öllum afskekktum og einangruðum þorpum, sem enn hefur ekki tekist að hafa samband við. Í gær höfðu fengist staðfestingar á því að meira en fimm þúsund manns væru látin.

Í sumum þorpum eru nánast öll hús hrunin. Óttast er að sjúkdómar eigi eftir að brjótast út meðal fólks, sem þarf að hafast við undir berum himni með takmarkaðan aðgang að hreinu vatni. Eftirskjálftar með aurskriðum hafa sums staðar gert björgunarfólki erfitt fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×