Stjarnan er áfram fjórum stigum á eftir toppliði Breiðabliks í Pepsi-deild kvenna en bæði lið unnu sína leiki í kvöld.
Stjarnan kom til baka og vann 1-3 sigur á Selfossi, eftir að hafa tapað fyrri leik liðanna á Samsung-vellinum, 1-2. Þessi sömu lið mætast svo í bikarúrslitaleiknum í lok ágúst.
Donna Kay Henry kom Selfossi yfir á 16. mínútu en Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, jafnaði metin 20 mínútum síðar.
Í seinni hálfleik var svo komið að markadrottningu síðustu tveggja ára, Hörpu Þorsteinsdóttur, en hún skoraði tvö mörk á átta mínútna kafla um miðjan seinni hálfleikinn og tryggði Stjörnukonum þar með stigin þrjú.
Fyrir leikinn í kvöld hafði Harpa ekki skorað í þremur leikjum í röð en hún reimaði aftur á sig markaskóna í kvöld. Harpa er nú komin með níu mörk í 11 deildarleikjum í sumar.
Stjarnan er sem fyrr í 2. sæti deildarinnar en Selfoss er í því fimmta en liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu sex deildarleikjum sínum.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar af úrslit.net.
Harpa tryggði sigurinn í seinni hálfleik

Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Fylkir - Stjarnan 1-2 | Stjarnan í bikarúrslit annað árið í röð
Stjarnan komst í kvöld í úrslit Borgunarbikarsins í þriðja sinn á fjórum árum en Fylkiskonur töpuðu í undanúrslitum þriðja árið í röð.

Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Valur 3-2 | Selfoss í úrslit annað árið í röð
Ótrúleg dramatík á Selfossi í dag