Erlent

Bretar senda hermenn gegn Talibönum

Samúel Karl Ólason skrifar
Afganskir hermenn í Helmandhéraði.
Afganskir hermenn í Helmandhéraði. Vísir/AFP
Yfirvöld í Bretlandi ætla að senda hermenn til Helmandhéraðs í Afganistan, þar sem Talibanar sækja nú hart gegn hermönnum og lögreglu. Varnarmálaráðuneyti Bretlands segir hermennina vera í hlutverki ráðgjafa en um 450 breskir hermenn eru í Afganistan.

Höfuðstöðvar lögreglunnar í bænum Sangin í Helmand héraði í Afganistan eru nú umsetnar af vígamönnum Talíbana. Harðir bardagar hafa geisað í bænum síðustu daga og er í raun óljóst hver fer þar með völdin nú um stundir, lögreglan eða Talíbanar. Héraðsstjóri Helmand segir í samtali við BBC að alrangt sé að Talíbanar hafi náð bænum á sitt vald en Talíbanar fullyrða það hins vegar.

Mikilvægt hérað

Ástandið í Afganistan virðist vera að versna á ný og í gær féllu sex bandarískir hermenn í sprengjuárás í norðurhluta þess. Það er ein mannskæðasta árás á erlenda hermenn í landinu síðustu misserin.

Helmandhérað er mikilvægt Talibönum þar sem mikil ópíumframleiðsla á sér stað þar. Ópíumið er notað til að fjármagna baráttu þeirra. Í stríðinu í Afganistan féllu rúmlega 100 breskir hermenn í Sangin. Í heildina féllu 456 Bretar í Afganistan.

The Times segja frá því að breskir sérsveitarmenn sem og bandarískir taki þátt í bardögum í Sangin. Um 30 menn úr Special Air Service eru sagðir berjast með 60 bandarískum sérsveitarmönnum en það hefur ekki fengist staðfest. Minnst 90 hermenn og lögregluþjónar hafa fallið í Helmandhéraði síðustu daga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×