Enski boltinn

Ferguson: Leicester getur orðið meistari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ferguson er hrifinn af Leicester-liðinu.
Ferguson er hrifinn af Leicester-liðinu. vísir/getty
Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, er afar hrifinn af liði Leicester City sem situr í toppsæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Skotinn segir að styrki Leicester sig í janúarglugganum geti liðið farið alla leið og orðið enskur meistari.

„Þetta er gríðarlega orkumikið lið sem er með mikinn hraða og kraft. Eins og staðan er núna er Leicester besta liðið í deildinni, ekki spurning.

Sjá einnig: Leikmenn Leicester að fagna í grímubúningum í Kaupmannahöfn

„Spurningin er samt hversu lengi endist þetta? Geta þeir haldið út? Tímabilið 1992-93, þegar við unnum úrvalsdeildina í fyrsta sinn, var Norwich á toppnum fram í miðjan mars. En við unnum þá á útivelli og fórum svo alla leið,“ sagði Ferguson sem vill sjá Leicester bæta við sig leikmönnum í janúar.

„Hvað er stjórinn Claudio Ranieri að segja við eigendurna? Hvernig vill hann bæta leikmannahópinn? Ef ég væri hann myndi ég vilja styrkja liðið í janúar því tækifærið er til staðar. Þeir gætu unnið deildina eins og þeir eru að spila núna.“

Ferguson lýsti einnig yfir hrifningu sinni á framherjanum Jamie Vardy sem hefur farið á kostum á tímabilinu og skorað 14 mörk í úrvalsdeildinni.

Sjá einnig: Saga Jamie Vardy á leiðinni á hvíta tjaldið

„Hann er ákveðinn, fljótur, kraftmikill og með markanef. Hann er frábært dæmi um leikmann sem gefst aldrei upp og hefur óbilandi trú á sjálfum sér,“ sagði Ferguson um Vardy sem mistókst að skora í 0-3 sigrinum á Swansea City um helgina eftir að hafa skorað í 11 leikjum í röð þar á undan.

Vardy er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni með 14 mörk.vísir/getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×