Enski boltinn

Styttist í endurkomu Henderson

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Henderson bregður á leik með Klopp á æfingu.
Henderson bregður á leik með Klopp á æfingu. Vísir/Getty
Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, er enn að jafna sig eftir að hann fótbrotnaði í ágústmánuði en hann segist í samtali við fjölmiðla ytra allur að vera að koma til.

Henderson hefur ekki spilað með Liverpool síðan að liðið vann Bournemouth, 1-0, í upphafi tímabilsins en síðan þá hefur félagið skipt um stjóra. Brendan Rodgers var rekinn og Jürgen Klopp ráðinn í hans stað.

„Þetta er allt að koma hjá mér,“ sagði hann í samtali við Sky Sports. „Ég hef sjaldan verið svona lengi frá og þetta hefur verið erfitt. En það er vonandi stutt í þetta hjá mér.“

Ekkert hefur verið gefið út um mögulega endurkomu Henderson nema að vonast er til að hann spili í nóvember. Liverpool vann frábæran 4-1 sigur á Manchester City um helgina og Henderson hrósaði sínum mönnum fyrir frammistöðuna.

Sjá einnig: Liverpool rúllaði yfir Manchester City

„Vonandi höfum við gefið tóninn fyrir restina af tímabilinu. Það kom í ljós hversu vel við getum spilað. Við þurfum að halda stöðugleika og spila með jafn miklu frelsi og við gerðum á laugardaginn.“

„Nýi stjórinn hefur haft mikil áhrif og hefur verið frábær fyrir bæði Liverpool og ensku úrvalsdeildina. Vonandi getum við haldið áfram að læra af honum og bæta okkar leik.“


Tengdar fréttir

Sturridge farinn að æfa aftur á fullu

Daniel Sturridge, framherji Liverpool, er farinn að æfa af fullum krafti á ný eftir langvarandi meiðsli og það styttist því óðum í fyrsta leik hans undir stjórn knattspyrnustjórans Jürgen Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×