Erlent

Hugðust sprengja breska sendiráðið í Ósló

Atli Ísleifsson skrifar
Krekar kom til Noregs frá Írak sem flóttamaður árið 1991 og er hann stofnandi íslamska öfgahópsins Ansar al-Islam.
Krekar kom til Noregs frá Írak sem flóttamaður árið 1991 og er hann stofnandi íslamska öfgahópsins Ansar al-Islam. Vísir/EPA
Lögregla víðs vegar um álfuna hefur handtekið sautján manns í samhæfðum aðgerðum vegna gruns um að þeir tengist alþjóðlegu hryðjuverkaneti.

Í frétt BBC segir að í aðgerðunum hafi sex verið handteknir á Ítalíu, fjórir í Bretlandi og þrír í Noregi. Talið er að sumir hinna handteknu hafi áður ferðast til Sýrlands eða Írak.

Hryðjuverkanetið er sakað um að vinna að lausn leiðtogans, Mulla Krekar, sem nú er í haldi í Noregi. Hann hefur um árabil setið í fangelsi, þar á meðal fyrir að hafa hyllt árásarmennina sem réðust á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo í París fyrr á árinu.

Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að hinir handteknu séu grunaðir um að skipuleggja hryðjuverkaárásir í Noregi og öðrum Evrópuríkjum, þar á meðal breska sendiráðið í Ósló.

Krekar kom til Noregs frá Írak sem flóttamaður árið 1991 og er hann stofnandi íslamska öfgahópsins Ansar al-Islam.

Yfirvöld í Noregi hafa reynt að vísa honum úr landi frá árinu 2003 þar sem hann er talinn vera ógn við þjóðaröryggi. Norsk lög kom hins vegar í veg fyrir að mögulegt sé að framselja hann til Íraks þar sem þar gæti hann átt yfir höfði sér dauðarefsingu.

Handtökur næturinnar voru framkvæmdar í Noregi, Ítalíu, Bretlandi, Finnlandi, Þýskalandi og Sviss.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×