Enski boltinn

Mancini: Ég breytti Manchester-slagnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Roberto Mancini gerði fína hluti með Manchester City.
Roberto Mancini gerði fína hluti með Manchester City. vísir/getty
Robert Mancini, þjálfari Inter í Seríu A, telur sig hafa breytt borgarslag Manchester City og Manchester United á þeim tíma sem hann var knattspyrnustjóri City í ensku úrvalsdeildinni.

Ítalinn stýrði City til sigurs í enska bikarnum árið 2011 og vann svo fyrsta úrvalsdeildartitil liðsins ári síðar eftir ótrúlegan lokadag.

Mancini telur komu sína á Etihad-völlinn vera það sem gerði City samkeppnishæft við United sem var nánast óstöðvandi afl í enska boltanum fram að því.

„Ég breytti Manchester-slagnum. Það var mjög erfitt. United var á toppnum í mörg ár þannig að komast upp að hlið þess var virkilega erfitt,“ sagði Mancini á fundi í Katar, en Goal.com greinir frá.

„Við keyptum mikið af góðum leikmönnum, lögðum mikið á okkur og unnum fyrsta titil liðsins í mörg ár. Mér finnst gaman að erfiðum áskorunum og ég vinn hart að því að ná mínum markmiðum.“

Ítalinn telur sína gömlu lærisveina vera besta liðið í ensku úrvalsdeildinni þessa stundina og hann þakkar sér að vissu leyti fyrir velgengni liðsins undanfarin ár.

„Manchester City á góðan möguleika að vinna titilinn. Ég er stoltur af þessu liði en ég byggði kjarna þess. Enska úrvalsdeildin er samt erfið og það þarf að leggja mikið á sig í hverjum einasta leik,“ sagði Roberto Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×