Erlent

Sierra Leone laust við ebólu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikill fögnuður braust út í Freetown eftir tilkynningu WHO.
Mikill fögnuður braust út í Freetown eftir tilkynningu WHO. Vísir/Getty
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur vottað að Afríkuríkið Sierra Leone sé laust við ebólu. Þúsundir hafa látist síðasta árið vegna ebólu-faraldurs í landinu.

Fjölmenni safnaðist saman á götum Freetown, höfuðborgar Sierre Leone, til þess að fagna yfirlýsingu WHO. Kerti voru tendruð til minningar um hina látnu á meðan aðrir dönsuðu af gleði.

Ríki telst laust við ebólu þegar ekkert smit greinist í 42 daga frá síðasta smiti. Um 4000 hafa látist úr ebólu í Sierra Leone frá því að faraldurinn hófst síðla árs 2013 en landið varð verst úti í faraldrinum sem kostaði rúmlega 11.000 manns lífið í Gíneu, Nígeríu, Líberíu og Sierra Leone.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mun fylgjast grannt með gangi mála næstu þrjá mánuðina til að ganga úr skugga um að ebóla snúi ekki aftur til Sierra Leone.


Tengdar fréttir

Bakslag í baráttunni við ebólu

Fimm ný tilfelli veirunnar gefa til kynna að ebóla kunni að hafa legið í dvala svo mánuðum skipti og geti lifað einkennislaus í hýslum sem smiti enn út frá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×