Erlent

Lögregla í London hætt að bíða Assange við sendiráðið

Bjarki Ármannsson skrifar
Stofnandi Wikileaks á enn von á því að verða handtekinn, stígi hann fæti út fyrir sendiráð Ekvador.
Stofnandi Wikileaks á enn von á því að verða handtekinn, stígi hann fæti út fyrir sendiráð Ekvador. Vísir/EPA
Lögregla í London hefur ákveðið að hætta að vakta ekvadorska sendiráðið þar sem Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hefur sótt hæli í rúm þrjú ár. Lögreglan segir að Assange verði samt sem áður handtekinn þegar og ef hann stígur fæti út fyrir sendiráðið. 

Ekvador veitti Assange hæli í sendiráði sínu í júní 2012 stuttu eftir að hæstiréttur í Bretlandi samþykkti að framselja hann til Svíþjóðar til að hægt væri að draga hann fyrir dómstóla vegna nauðgunarákæru sem gefin var út á hendur honum þar í landi árið 2010.

Síðan þá hefur lögregla vaktað sendiráðsbygginguna í miðborg London nótt sem nýtan dag. Ástæðan fyrir því að gæslunni er hætt núna er einfaldlega sú að lögreglan telur það ekki lengur þess virði að halda henni út en alls hefur hún kostað lögreglu rúmlega tvo milljarða íslenskra króna.

Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, segir í samtali við breska ríkisútvarpið að staða Assange sé í raun óbreytt þar sem lögregla hafi gefið það út að áfram verði leitað leiða til að handtaka hann. Assange hefur boðist til þess að svara fyrir nauðgunarákæruna í ekvadorska sendiráðinu en hann hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu. 

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×