Erlent

Leiðtogi Al Qaeda veginn í Sýrlandi

Sanafi al-Nasr var veginn á fimmtudag.
Sanafi al-Nasr var veginn á fimmtudag.
Að sögn bandarískra stjórnvalda var Sanafi al-Nasr, leiðtogi skæruliðahóps með tengsl við Al Qaeda, veginn í loftárás í liðinni viku.

Hinn sádiarabíski Al-Nasr, sem hét réttu nafni Abdul Mohsen Adballah Ibrahim al Charekh, fór fyrir Khorasan hópnum, samansafni fyrrum meðlima al Qaeda sem farnir voru að gera sig breiða í Sýrlandi ef marka má yfirlýsingu frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu.

Loftárásin var gerð í norðvesturhluta Sýrlands á fimmtudag. Ef marka má frétt CNN um málið er talið að Nasr hafi ásamt undirtyllum sínum verið að undirbúa árás á Vesturlönd.

Nasr, sem var eitt sinn fjármálastjóri Al Qaeda, er fimmti leiðtogi Khorasan hópsins sem veginn er á síðastliðnum fjórum mánuðum.

Talið er að fráfall Nasrs sé mikið reiðarslag fyrir hryðjuverkasamtökin í Sýrlandi en hann lék lykilhlutverk við fjármögnun þeirra. Þá aðstoðaði hann nýja meðlimi samtakanna við að finna leiðir til að komast á átaksvæðin í Sýrlandi frá Pakistan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×