Erlent

Pistorius sleppt úr haldi

Bjarki Ármannsson skrifar
Pistorius skaut kærustu sína, Reena Steenkamp, til bana á heimili sínu í febrúar árið 2013.
Pistorius skaut kærustu sína, Reena Steenkamp, til bana á heimili sínu í febrúar árið 2013. Vísir/AFP
Suður-afríski spretthlauparinn Oscar Pistorius var í kvöld látinn laus úr fangelsi en honum verður gert að ljúka afplánun sinni í stofufangelsi. Hann hlaut fimm ára dóm í fyrra fyrir að hafa skotið unnustu sína til bana.

Að því er breska ríkisútvarpið greinir frá, var Pistorius fluttur á heimili frænda síns. Hann átti ekki að vera látinn laus fyrr en á morgun en sennilega var gripið til þessarar ráðstöfunar til þess að forða Pistorius frá því að vera eltur af fjölmiðlum á leið sinni úr haldi.

Talið er að hann muni ljúka afplánun sinni á heimili frænda síns. Heimildir ríkisútvarpsins herma að hann verði ekki látinn vera með rafrænt ökklaband en sé þó heldur ekki frjáls ferða sinna.

Áfrýjun tekin fyrir í næsta mánuði

Ólympíufarinn Pistorius skaut kærustu sína, Reena Steenkamp, til bana á heimili sínu í febrúar árið 2013. Hann hefur ávallt haldið því fram að um slys hafi verið að ræða og að hann hafi talið að hún væri innbrotsþjófur.

Hann var sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi en saksóknarar í málinu sem og ættingjar Steenkamp hafa sagt dóminn yfir honum allt of léttvægan.

Dómurinn féll í október í fyrra og hafa saksóknarar, sem fóru fram á tíu ára fangelsisdóm, áfrýjað honum til Hæstaréttar Suður-Afríku. Málið verður tekið fyrir þar í næsta mánuði.


Tengdar fréttir

Saksóknarar í máli Pistorius áfrýja

Saksóknarar segja dóminn yfir Oscar Pistorius hafa verið "hneykslanlega léttvægan“, en svo kann að fara að honum verði sleppt eftir tíu mánuði.

Pistorius í fimm ára fangelsi

Oscar Pistorius, Suður Afríski spretthlauparinn sem skaut unnustu sína Reevu Steenkamp til bana var í morgun dæmdur í fimm ára fangelsi. Hann hafði áður verið fundinn sekur um manndráp af gáleysi. Þá fékk hann einnig þriggja ára fangelsisdóm fyrir brot á vopnalögum en sá dómur var skilorðsbundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×