Erlent

Sýrlenski herinn beitir nýjum vopnum frá Rússum

Samúel Karl Ólason skrifar
Sýrlenski herinn hefur þurft að láta undan sóknum uppreisnarhópa undanfarna mánuði.
Sýrlenski herinn hefur þurft að láta undan sóknum uppreisnarhópa undanfarna mánuði. Vísir/AFP
Sýrlenskir hermenn eru nú byrjaðir að nota nýjar tegundir vopna. Þau eru fengin frá Rússum sem hafa verið að auka umsvif sín í Sýrlandi undanfarið.

Heimildarmaður Reuters fréttaveitunnar segir vopnin vera mjög nákvæm og að hermennirnir hafi verið þjálfaðir í notkun þeirra undanfarna mánuði. Hinn vildi þó ekki fara nánar út í hvaða vopn um væri að ræða og sagði einungis að hægt væri að nota þau í lofti og á jörðu niðri.

Walid al-Moualem, utanríkisráðherra Sýrlands, sagði einnig í dag að Rússland hefði útvegað sýrlenska hernum ný vopn. Í sjónvarpsáhori í ríkissjónvarpi Sýrlands sagði hann að stjórnvöld væru tilbúin til að biðja Rússa um að berjast sér við hlið ef þörf væri á. Moualem tók þó fram að engir slíkir hermenn væru staddir í Sýrlandi.

Yfirvöld í Rússlandi segja tilgang aðgerða sinna í Sýrlandi vera að berjast gegn hryðjuverkum, vernda Sýrland sem ríki og að koma í veg fyrir stórslys á svæðinu.

Sjá einnig: Tilbúnir til viðræðna við Rússland

Bandaríkin og bandamenn þeirra óttast að aukin þátttaka Rússa í átökunum í Sýrlandi myndu draga stríðið á langinni. Þeir vilja losna við Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, sem fyrst. Bandaríkin, Sádi-Arabía og Tyrkland hafa stutt við bakið á uppreisnarhópum sem berjast gegn stjórnarhernum og Assad.

Aftur á móti hefur Assad verið studdur af Rússum, Íran og Hezbollah samtökunum frá Líbanon. Stjórnarher Sýrlands gerði í dag loftárásir á borgina Raqqa, sem er höfuðvígi ISIS, en sýrlensku samtökin Syrian Observatory for Human Rights, segja minnst átján hafa fallið í þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×