Erlent

Árásinni í Bangkok var beint gegn ferðamönnum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fjöldi manns var á staðnum er sprengingin varð.
Fjöldi manns var á staðnum er sprengingin varð. vísir/ap
Minnst tólf eru látnir og hátt í áttatíu særðir eftir að mótórhjólasprengja sprakk í Bangkok, höfuðborg Taílands. Ríkisstjórn landsins segir að sprengjunni hafi verið ætlað að skaða ferðamannaiðnað í landinu og lama þar með efnahagskerfi þess.

78 manns hafa verið fluttir á nærliggjandi sjúkrahús en hlúð er að minna slösuðum á nærliggjandi hótelum.

Sprengingin átti sér stað á fjölförnum gatnamótum skammt frá Erawan hofinu í höfuðborginnni. Margir heimsækja hofið á degi hverjum, jafnt ferðamenn sem heimafólk, en þar má finna styttu af Brahma, gyðju hindúa.



Torgið hefur í gegnum tíðina verið nýtt til mótmæla í landinu en fyrir fimm árum síðan létust níutíu manns er herinn hóf skothríð að mótmælendum sem voru komnir saman til að lýsa yfir andúð sinni á stjórnvöldum í landinu. Aðeins rétt rúmir sex kílómetrar eru frá hofinu að þinghúsi landsins.

Mikill óróleiki hefur verið í landinu undanfarin ár en landinu hefur verið stýrt af hernum frá því í maí í fyrra. Herinn tók þá stjórnina eftir að mótmæli höfðu staðið yfir í landinu svo mánuðum skipti. Oftar en ekki fóru þau fram þar sem sprengjan sprakk.



Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á árásinni en talið er líklegt að múslimar í suðurhluta landsins séu að baki henni. Sprengjur eru afar sjaldséðar í höfuðborginni en öllu algengari syðst í landinu. Rúm 95% þeirra 67 millljón manns sem í landinu búa eru búddistar en aðrir eru ýmist múslimar eða hindúar.

„Markmiðið var að eyðileggja hagkerfið og ferðamannaiðnaðinn því sprengjan sprakk á miklu ferðamannasvæði,“ segir Prawit Wongsuwan varnarmálaráðherra Taílands.

„Við höfum fundið eina sprengju á svæðinu og teljum líklegt að það séu fleiri. Við leitum af þeim í augnablikinu. Það gæti orðið önnur sprenging svo við biðjum fólk um að vera ekki á þvælingi að óþörfu í kringum svæðið,“ segir Wongsuwan.

vísir/ap
vísir/ap
vísir/ap
vísir/ap
vísir/ap
vísir/ap
vísir/ap

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×