Erlent

Öflug sprenging í Bangkok

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Heimildum ber ekki saman um hve margir eru látnir.
Heimildum ber ekki saman um hve margir eru látnir. Vísir/AFP
Minnst tólf eru látnir og hátt í tuttugu særðir eftir að sprenging varð í Bangkok, höfuðborg Taílands. Nærliggjandi svæði hafa verið rýmd en fregnir herma að fleiri sprengjur séu á staðnum.

Sprengingin varð sökum mótorhjólasprengju og hafa tvær aðrar sprengjur fundist á svæðinu samkvæmt tælenskum fjölmiðlum. Unnið er að því að aftengja þær. Árásin átti sér stað um klukkan 19 að staðartíma.



Sprengingin átti sér stað skammt frá Erawan hofinu í höfuðborginni en önnur sprengja fannst inni í hofinu. Í hofinu má finna styttuna Phra Phrom en hún er af Brahma, einni af fjölmörgum gyðjum hindúa. Fjölmargir ferðamenn heimsækja hofið á degi hverjum.

Óróleiki hefur verið í Taílandi undanfarin ár en árið 2010 létust níutíu mótmælendur, á sama stað og sprengingin varð nú, er herinn hóf að skjóta á fólk sem mótmælti þáverandi stjórnvöldum.

Ekki er vitað hver eða hverjir standa að baki árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×