Erlent

Þungi sögunnar hvílir á Þýskalandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Angela Merkel, kanslari Þýskalands
Angela Merkel, kanslari Þýskalands Vísir/Epa
Mikil ábyrgð er nú sögð hvíla á herðum Angelu Merkel Þýskalandskanslara fyrir komandi viðræður leiðtoga evruríkjanna fyrir stöðu Grikklands innan myntsamstarfsins.

Það kom skýrt fram í viðbörgðum Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar sem var ómyrkur í máli við fréttamenn fyrir fund fjármálaráðherra evruríkjanna í Brussel í dag.

„Það verður að koma í veg fyrir að Grikkir yfirgefi evrusamstarfið,“ sagði Asselborn í samtali við þýska blaðið Süddeutsche Zeitung. „Það myndi hafa verulega skaðleg áhrif á stöðu Þýskalands innan Evrópusambandsins og heimsþorpsins.“

Asselborn bætti við: „Ábyrgð Þjóðverja er mikil og snýst í grunninn um að endurvekja ekki drauga fortíðarinnar. Ef Þjóðverjar fara fram á að Grikkir hætti í evrusamstarfinu myndi það hafa í för með sér djúpstæð átök við Frakka. Það myndi þýða glundroða fyrir Evrópu.“

Andrúmsloftið var lævi blandið í Brussel í dag og spennan mikil.

Þýski miðillinn Der Spiegel sagði daginn í dag þann stærsta í 10 ára valdatíð Angelu Merkel og biðlaði til kanslarans að hún „sýndi mikilleika“ og bjargaði Evrópu.

Þar er einnig greint frá orðrómum þess efnis að Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, hygðist ætla að kljást við Merkel ef fundurinn þróaðist ekki á þá vegu sem hann vonaðist. Hann ætli sér að setja hnefann í borðið og lýsa því yfir að Evrópusamstarfið myndi ekki þrífast ef Þýskaland hefði í hyggju að halda áfram að niðurlægja samstarfslönd sín.






Tengdar fréttir

Tillögur Grikkja ræddar

Fjármálaráðherrar evruríkjanna hittast á fundi í dag til að ræða tillögur Grikkja til að taka á skuldavanda landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×