Íslenski boltinn

KFG lét Breiðablik hafa fyrir hlutunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Höskuldur skoraði þriðja og síðasta mark Breiðabliks.
Höskuldur skoraði þriðja og síðasta mark Breiðabliks. vísir/pjetur
Breiðablik þurfti að hafa fyrir því að leggja 4. deildarlið KFG að velli í lokaleik 32-liða úrslita Borgunarbikarsins í fótbolta. Lokatölur 1-3, Blikum í vil en leikið var á Samsung-vellinum í Garðabæ.

Arnar Grétarsson gerði 10 tíu breytingar á liði Breiðabliks sem vann 3-0 sigur á Stjörnunni á sunnudaginn í 6. umferð Pepsi-deildar karla. Gunnleifur Gunnleifsson var sá eini í byrjunarliðinu í kvöld sem spilaði leikinn gegn Stjörnunni.

Arnór Gauti Ragnarsson skoraði eina mark fyrri hálfleiks þegar hann kom Blikum yfir með skalla eftir hornspyrnu Atla Sigurjónssonar.

Staðan var 0-1 í hálfleik og fram á 73. mínútu þegar Hákon Atli Bryde jafnaði metin með skalla eftir fyrirgjöf Arnars Þórs Ingasonar.

Arnar gerði í kjölfarið tvöfalda skiptingu sem skilaði árangri á 85. mínútu þegar Haukur Þorsteinsson skoraði klaufalegt sjálfsmark.

Varamaðurinn Höskuldur Gunnlaugsson kláraði svo dæmið í uppbótartíma þegar hann skoraði þriðja mark sitt í sumar.

Lokatölur 1-3, Breiðabliki í vil en Kópavogsbúar verða í hattinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit bikarkeppninnar á morgun.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×