Erlent

Tveir skotnir til bana á myndakeppni af Múhameð

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AP
Tveir árásarmenn voru skotnir til bana í Texas í Bandaríkjunum í nótt. Þeir hófu skothríð á öryggisvörð við myndasamkeppni af spámanninum Múhameð. Sprengjusérfræðingar voru kallaðir út til að leita í bíl þeirra.

Lögregluþjónar skutu mennina til bana. Samkvæmt talsmanni lögreglunnar höfðu þeir ekki fengið viðvaranir um árásir á keppnina og er ekki vitað hvort að myndakeppnin hafi tengst árásinni, samkvæmt AP fréttaveitunni. Öryggisvörðurinn lifði árásina af en þurfti að fara á sjúkrahús.

Samtökin American Freedom Defense Initiative héldu keppnina og voru tíu þúsund dalir, eða um 1,3 milljónir króna, í verðlaun fyrir bestu teikninguna af Múhameð. Samkvæmt Íslam eru allar teikningar af spámanninum guðlast og hafa slíkar teikningar leitt til ofbeldis út um allan heim.

Lík árásarmannanna voru ekki færð frá bílnum í fyrstu, þar sem lögreglan óttaðist að á þeim, eða í bílnum sem þeir lágu við, væru sprengjur.

Vígamaður Íslamska ríkisins segir á Twitter að árásin hafi verið gerð af mönnum sem væru hliðhollir ISIS. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×