Erlent

Heimild veitt fyrir ferjusiglingum milli Flórída og Kúbu

Atli Ísleifsson skrifar
Kúba er um 150 kílómetrum suður af Flórída.
Kúba er um 150 kílómetrum suður af Flórída. Vísir/Getty
Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að heimila ferjusiglingar milli Flórída-ríkis og Kúbu.

Ferjur hafa ekki gengið milli ríkjanna síðastliðin fimmtíu ár, eða frá því að Bandaríkin settu viðskiptabann á Kúbu árið 1962.

Tilkynnt var um samkomulag um aukin og bætt samskipti ríkjanna í desember síðastliðinn. Samkomulagið felur meðal annars í sér að diplómatísk tengsl landanna verði aukin í þrepum og að sendiráð verði opnað í Havana. Bandaríkin hafa ekki verið með sendiráð á Kúbu í meira en hálfa öld. Þá var samþykkt að bæði ríkin skyldu sleppa föngum.

Bandaríkjastjórn hefur nú veitt tveimur fyrirtækjum leyfi til að starfrækja ferjusiglingar milli Flórída og Kúbu. Áður hafði verið greint frá því að flugfélaginu JetBlue hafði verið veitt leyfi til að fljúga milli New York borgar og kúbönsku höfuðborgarinnar Havana.

Í frétt BBC segir að þrátt fyrir þessar breytingar sem snúa að samgöngum milli ríkjanna sé Bandaríkjamönnum enn bannað að ferðast til Kúbu. Einungis þeir sem hafa fyllt úr viðamiklar umsóknir og fengið þær samþykktar af yfirvöldum mega nú sækja Kúbu heim.

Ferjuflutningar á vörum milli ríkjanna hefur einnig verið heimilaður samkvæmt ákvörðun Bandaríkjastjórnar.

Kúba er um 150 kílómetrum suður af Flórída.


Tengdar fréttir

Kúbumenn fagna tímamótum

Kúbustjórn tekin af lista Bandaríkjanna yfir stuðningsríki hryðjuverkafólks.

Kollegar frá Kúbu og Bandaríkjunum hittust í Panama

Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Kúbu, þeir John Kerry og Bruno Rodriguez hittust í gærkvöldi á fundi en svo háttsettir embættismenn hvorrar þjóðar fyrir sig hafa ekki hist í rúma hálfa öld. Kollegarnir voru saman í Panama til að sitja fund Ameríkuríkja sem hefst í dag og var ákveðið að þeir myndu hittast enda hefur þíðan á milli ríkjanna tveggja ekki verið meiri frá því Fidel Castro og félagar hans gerðu byltingu á Kúbu á sínum tíma.

Airbnb opnar fyrir heimagistingar á Kúbu

Rúmlega þúsund eignir á Kúbu eru þegar á lista Airbnb, en enn sem komið er er einungis mögulegt að bóka slíkar eignir í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×