Erlent

Kúba tekið af lista Bandaríkjanna yfir ríki sem styðja hryðjuverk

Bjarki Ármannsson skrifar
Frá fundi Obama og Castro.
Frá fundi Obama og Castro. Vísir/EPA
Barack Obama Bandaríkjaforseti hyggst taka Kúbu af lista Bandaríkjanna yfir þau ríki sem styðja hryðjuverk. Í tilkynningu til þingsins segir Obama að ríkisstjórn Kúbu hafi ekki stutt alþjóðleg hryðjuverk síðasta hálfa árið og að stjórnin ábyrgist að hún muni ekki gera það í framtíðinni.

Um er að ræða stórt skref í átt að betra stjórnmálasambandi þjóðanna, en það hefur andað köldu á milli þeirra frá því að kommúnistar komust til valda í Kúbu árið 1959. Obama og Raul Castro, forseti Kúbu, hittust á sögulegum fundi í Panama í síðustu viku sem var fyrsti fundur leiðtoga ríkjanna tveggja í fimmtíu ár.

Kúba hefur verið á listanum frá árinu 1982 vegna gruns Bandaríkjastjórnar um að ríkisstjórn Kúbu hefði veitt liðsmönnum basknesku aðskilnaðarhreyfingarinnar ETA á Spáni skjól. Íran, Súdan og Sýrland eru áfram á listanum, að því er BBC greinir frá.

Josh Earnest, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, segir að Bandaríkin og Kúbu greini þó áfram á um ýmis mikilvæg atriði. Kúba mun áfram sæta viðskiptabanni, að minnsta kosti enn um sinn.


Tengdar fréttir

Kollegar frá Kúbu og Bandaríkjunum hittust í Panama

Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Kúbu, þeir John Kerry og Bruno Rodriguez hittust í gærkvöldi á fundi en svo háttsettir embættismenn hvorrar þjóðar fyrir sig hafa ekki hist í rúma hálfa öld. Kollegarnir voru saman í Panama til að sitja fund Ameríkuríkja sem hefst í dag og var ákveðið að þeir myndu hittast enda hefur þíðan á milli ríkjanna tveggja ekki verið meiri frá því Fidel Castro og félagar hans gerðu byltingu á Kúbu á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×