Erlent

Obama kallar eftir stuðningi alþjóðasamfélagsins

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Barack Obama gefur lítið fyrir gagnrýni repúblikana og segir nýjan rammasamning góðan. Líta eigi á hann sem sögulegt tækifæri til þess að stöðva hugsanlega útbreiðslu kjarnorkuvopna í Íran.
Barack Obama gefur lítið fyrir gagnrýni repúblikana og segir nýjan rammasamning góðan. Líta eigi á hann sem sögulegt tækifæri til þess að stöðva hugsanlega útbreiðslu kjarnorkuvopna í Íran. vísir/ap
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði í vikulegu ávarpi sínu í dag að nýr rammasamningur um kjarnorkuáætlun Írans væri „góður samningur“. Hann sagði þó að best væri að leysa allan ágreining með frekari viðræðum og kallaði eftir opinberum stuðningi.

Ekki eru allir sáttir við efni samningsins, til að mynda repúblikanar, og verður hann því kynntur fyrir bandaríska þinginu á næstu dögum.

„Þetta er góður samningur sem mætir okkar meginmarkmiðum. Hann inniheldur strangar takmarkanir á áætlanir Írans og lokar á allar hugsanlegar leiðir Írans til að þróa kjarnorkuvopn,“sagði Obama í ávarpi sínu. Þá sagðist hann vonast til að efasemdum um samninginn fari að ljúka.

Lokasamkomulag ætti að liggja fyrir í lok júní, gangi allt eftir. Obama sagði að skiptar skoðanir gætu orðið á samningnum og því gæti hann ekki tryggt það að samningar náist. „En nú fáum við sögulegt tækifæri til að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna í Íran og við getum gert það á friðsamlegan hátt með alþjóðasamfélagið þétt að baki,“ sagði hann.

Repúblikanar krefjast þess að fá að hlutast til um ákvæði samningsins en hann felur í sér að Íranar dragi verulega úr kjarnorkuáætlun sinni og takmarki auðgun úrans og annarra geislavirkra efna sem mögulega væri hægt að nota í kjarnorkuvopn. Í staðinn verður dregið verulega úr alþjóðlegum viðskiptaþvingunum og bönnum gegn Íran sem leikið hafa efnahag landsins grátt árum saman.


Tengdar fréttir

„Ætlum ekki að svindla“

Forseti Írans segist ætla að hlíta skilmálum kjarnorkusamningsins sem undirritaður var í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×