Erlent

Setja sig á móti samkomulagi við Íran

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölmargir stuðningsmenn samkomulags lýstu yfir skoðun sinni við utanríkisráðherra Íran í morgun.
Fjölmargir stuðningsmenn samkomulags lýstu yfir skoðun sinni við utanríkisráðherra Íran í morgun. Vísir/EPA
Ísraelar og harðlínumenn í Íran hafa sett sig á móti samkomulagi í kjarnorkuviðræðum við Írani. Í gær voru samþykkt drög að sáttmála á milli sex stórvelda og Íran. Dregið yrði úr viðskiptaþvingunum gegn Íran í skrefum, en þess í stað myndi Íran draga verulega úr kjarnorkuáætlun sinni.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir að ríkisstjórn sín sé alfarið á móti drögunum sem hafa verið samþykkt. Hann segir að þvinga ætti Írani til að taka í sundur kjarnorkuáætlun sína og það sé eina leiðin til að koma alfarið í veg fyrir að Íran komi upp kjarnorkuvopnum.

Annars sé einungis tímaspursmál hvenær þeir muni koma upp kjarnorkuvopnum. Netanyahu segir að Írönum sé ekki treystandi. Þetta kemur fram á vef AP fréttaveitunnar.

Harðlínumenn í Íran hafa einnig gagnrýnt samkomulagið og segja að of langt sé gengið í að draga úr kjarnorkuþróun landsins. Þrátt fyrir það hafa íbúar í Íran fagnað á götum úti. Íranar hafa alltaf haldið því fram að tilgangur kjarnorkuáætlunar þeirra sé friðsamlegur. Einungis standi til að nota kjarnorku til orkuframleiðslu.

Á vef BBC er haft eftir Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Íran, að þrátt fyrir þetta samkomulag sé mikil vinna sem eigi eftir að vinna áður ef að skrifa eigi undir fullkláraðan samning fyrir 30. júní, sem er markmiðið.

Nú fyrir skömmu ávarpaði forseti Íran, Hassan Rouhani, þjóðina og hét hann því að Íran myndi standa við öll skilyrði samkomulagsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×