Erlent

Flaug á fjallið á 700 kílómetra hraða

Atli Ísleifsson skrifar
Stærstur hluti braksins dreifist yfir tiltölulega lítið svæði sem bendir til að vélin fór fyrst í sundur eftir að hafa skollið á fjallið.
Stærstur hluti braksins dreifist yfir tiltölulega lítið svæði sem bendir til að vélin fór fyrst í sundur eftir að hafa skollið á fjallið. Vísir/AFP
Sérfræðingar velta því nú fyrir sér hvers vegna vél Germanwings var ekki flogið í átt frá fjallendi þegar hún tók að missa hæð. Brak úr Airbus320-vélinni dreifðist á svæði í 1.200 til 1.800 metra hæð eftir að hún skall á fjall í frönsku Ölpunum í gær.

Í frétt danska ríkisútvarpsins segir að vélin hafi skollið á fjallið á um 700 kílómetra hraða og bókstaflega farið í þúsund ef ekki tíu þúsund bita. „Það er ekkert sem líkist flugvél þarna í fjallinu,“ segir Bjørn Willum, fréttamaður DR.

Í fréttinni segir að stærstur hluti braksins dreifist yfir tiltölulega lítið svæði sem bendir til að vélin fór fyrst í sundur eftir að hafa skollið á fjallið. „Sérfræðingar segja að vélin hafi ekki sprungið í lofti,“ segir Willum.

Slysstaðurinn hefur þó fengið menn til að velta ýmsu fyrir sér. Í frönskum miðlum er sagt frá því að sérfræðingum þykir það undarlegt að flugmennirnir hafi haldið áfram á þessari flugleið eftir að vélin tók að missa flug. Vélin fór úr 38 þúsund feta hæð í 6 þúsund feta hæð á um átta mínútum, en hvarf svo af ratsjám.

„Dæmigerð viðbrögð hefðu verið að leita að flatlendi þar sem möguleiki væri á að lenda. Í staðinn er flogið áfram líkt og ekkert hafi í skorið, yfir Alpana, sem eru að sjálfsögðu versti mögulegi staðurinn til að nauðlenda,“ segir Willum.

Einnig þykir undrun sæta að flugmennirnir hafi ekki sent frá sér neyðarkall á þeim tiltölulega langa tíma sem vélin missti hæð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×