Erlent

„Jihadi John“ nafngreindur

Atli Ísleifsson skrifar
Talið er að Emwazi hafi ferðast frá Bretlandi til Sómalíu árið 2006 þar sem hann gekk til liðs við hryðjuverkasamtökin al-Shabab.
Talið er að Emwazi hafi ferðast frá Bretlandi til Sómalíu árið 2006 þar sem hann gekk til liðs við hryðjuverkasamtökin al-Shabab. Vísir/AP
Grímuklæddi maðurinn sem hefur komið fyrir í mörgum aftökumyndböndum ISIS hefur nú verið nafngreindur.

Bresk yfirvöld segja manninn, sem í fjölmiðlum hefur gengið undir nafninu „Jihadi John“, vera Bretann Mohammed Emwazi frá vesturhluta London. Emwazi er 27 ára gamall.

Í frétt BBC segir að breska öryggislögreglan hafi ekki viljað opinberað nafn mannsins fyrr af ótta við að slíkt myndi hafa áhrif rannsóknir tengdra mála.

Emwazi kom fyrst fyrir í myndbandi ISIS í ágúst síðastliðinn þar sem bandaríski blaðamaðurinn James Foley var tekinn af lífi. Hann á einnig að hafa birst í myndböndum þar sem bandaríski blaðamaðurinn Steven Sotloff, breski hjálparstarfsmaðurinn David Haines, breski leigubílstjórinn Alan Henning og bandaríski hjálparstarfsmaðurinn Abdul-Rahman Kassig voru teknir af lífi.

Í síðasta mánuði kom svo Emwazi aftur fyrir í myndböndum þar sem japönsku gíslarnir Haruna Yukawa og Kenji Goto voru teknir af lífi.

Talið er að Emwazi hafi ferðast frá Bretlandi til Sómalíu árið 2006 þar sem hann gekk til liðs við hryðjuverkasamtökin al-Shabab.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×