Erlent

Uppreisnarmenn í Jemen taka völd og leysa upp þing

Atli Ísleifsson skrifar
Uppreisnarhópur húta náði yfirráðum í höfuðborginni Sanaa í september.
Uppreisnarhópur húta náði yfirráðum í höfuðborginni Sanaa í september. Vísir/EPA
Jemenskir uppreisnarmenn hafa tilkynnt að þeir hafi tekið völd í landinu og leyst upp þingið. Talsmaður uppreisnarmanna sagði í sjónvarpsávarpi fyrr í dag að fimm manna ráð muni til bráðabirgða starfa í stað forseta.

Uppreisnarhópurinn náði yfirráðum í höfuðborginni Sanaa í september, og neyddu forsetann Abed Rabbo Mansour Hadi til að segja af sér í síðasta mánuði.

Í frétt BBC kemur fram að tilkynning uppreisnarmanna komi í kjölfar þess að sáttaviðræður sem Sameinuðu þjóðirnar komu að, runnu út í sandinn.

Uppreisnarhópur svokallaðra húta hafði áður gefið stjórnmálaflokkum frest fram á miðvikudag til að ná samkomulagi um að binda endi á pólitískt umrót í landinu, ellegar myndi hann bregðast einhliða við.

Hútar eru sjíamúslímar frá norðurhluta landsins og hafa valdamiklir súnnímúslímar og flokkar í suðurhluta landsins ekki viðurkennt valdatökuna.

Íranir hafa verið sakaðir um að styrkja húta fjárhagslega og með vopnum, en báðir aðilar hafa hafnað slíkum ásökunum.

Ringulreið hefur einkennt jemensk stjórnmál allt frá því að mótmælendur neyddu forsetann Ali Abdullah Saleh til að segja af sér árið 2011.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×