Erlent

Indlandsför ástæða fjarveru Kerry

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
John Kerry gengur út af fundi í borginni Gandhinagar. Heimsókn hans til Indlands var ástæða fjarveru hans í París.
John Kerry gengur út af fundi í borginni Gandhinagar. Heimsókn hans til Indlands var ástæða fjarveru hans í París. vísir/ap
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur skýrt frá því hvers vegna hann gat ekki verið viðstaddur samstöðufund þann sem fram fór í Frakklandi í gær. Kerry er staddur um þessar mundir í Indlandi á fundi sem skipulagður var fyrir löngu en mun heimsækja Frakkland síðar í vikunni við fyrsta tækifæri. Þetta kemur fram hjá FOX.

Þjóðarleiðtogar gengu í gær fylktu liði um götur Parísar til að sýna frönsku þjóðinni stuðning sinn í kjölfar skotárásanna í París í liðinni viku. Bandaríkin voru alls ekki eina landið sem ekki sendi ráðamann því hið sama gerði Ísland.

„Mig langaði mjög til að vera í París,“ segir Kerry, „en skuldbindingar mínar hér komu í veg fyrir það.“ Hann bætti við að sendiherra Bandaríkjanna í Frakklandi hefði verið í göngunni sem og starfsmenn sendiráðsins.

„Ég mun ferðast til Frakklands við fyrsta mögulega tækifæri. Um leið og ég frétti af göngunni spurði ég aðstoðarmenn mína hver væri fyrsti sénsinn til að heimsækja landið. Þess vegna mun ég koma þar við á leiðinni heim og sýna stuðning Bandaríkjanna í verki," segir Kerry.

Kerry mun koma til Parísar á fimmtudag eftir að hafa komið við í Sofíu og Genf. Í Genf stendur til að ræða við íranska utanríkisráðherrann, Javad Zarif, um kjarnorkuvopnamál landsins.

„Engin hryðjuverk, tvær manneskjur vopnaðar AK-47 eða gíslataka í matvörubúð mun nokkurn tímann geta haft betur í baráttunni um frelsi íbúa heimsins,“ bætti Kerry við að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×