Enski boltinn

Van Gaal um gagnrýni Scholes: Hann er bara einn af stuðningsmönnunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal og Paul Scholes.
Louis van Gaal og Paul Scholes. Vísir/Getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, var að sjálfsögðu spurður út í gagnrýni Paul Scholes á blaðamannafundi í dag en hollenski stjórinn hafði nú ekki miklar áhyggjur af skoðun eins besta miðjumannsins í sögu félagsins.

Paul Scholes á erfitt með að horfa á sitt gamla lið spila þessa dagana. „Það veitir mér enga ánægju að segja að ég á erfitt með að horfa á liðið hans Van Gaal þessa dagana. Það vann Burnley á miðvikudaginn en Burnley var mun betra liðið í fyrri hálfleik. Stundum er fótboltinn sem United spilar ömurlegur,“ skrifaði Scholes í pistli sínum.

„Þetta er nú ekkert sérstaklega áhugavert og þessi skrif skapa engin vandamál fyrir okkur. Hann er bara einn af stuðningsmönnunum og þeir mega alveg gagnrýna liðið," sagði Louis van Gaal.

„Allir leikmennirnir mínir eru vanir því að fá á sig gagnrýni. Þeir eru ekki á sínu fyrsta ári sem atvinnumenn," sagði Van Gaal.

„Þetta hefur kannski áhrif á einhverja leikmenn en vanalega hefur þetta engin áhrif á þá og alls engin áhrif á mig. Þegar leikmenn spila illa þá spila þeir illa. Þegar þeir spila vel þá spila þeir vel," sagði Van Gaal.

„Ég var vonsvikinn með hvernig við spiluðum á móti Burnley og talaði um það eftir leikinn. Nú bíður okkar annar leikur þar sem að við getum sýnt að við erum enn á réttri leið. Úrslitin hafa í það minnsta ekki verið slæm að mínu mati," sagði Van Gaal.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×