Erlent

Táragasi beitt gegn mótmælendum

Freyr Bjarnason skrifar
Mörg hundruð mótmælendur kveiktu á símunum sínum í fjármálahverfi Hong Kong.
Mörg hundruð mótmælendur kveiktu á símunum sínum í fjármálahverfi Hong Kong. Nordicphotos/AFP
Lögreglumenn í Hong Kong hafa varið ákvörðun sína um að nota táragas og fleiri aðferðir til að hafa stjórn á mótmælendum í fjármálahverfi borgarinnar.

Mótmælin hafa lamað hverfið og hvatti lögreglan mennta- og háskólanema í gær til að láta af þeim. Vaxandi fjöldi almennings hefur gengið í lið með mótmælendum og svo virðist sem aðgerðirnar hafi komið lögreglunni á óvart.

„Nemendurnir eru að standa vörð um rétt sinn til að kjósa um framtíð Hong Kong. Við erum ekki hrædd, við ætlum að berjast fyrir þessu,“ sagði Carol Chan, 55 ára Hong Kong-búi. Hún reiddist mjög þegar lögreglan ákvað að nota táragasið á sunnudaginn og tók sér tveggja daga frí frá vinnu til að taka þátt í mótmælunum.

Lögreglan segist hafa notað 87 táragashylki, sem henni þótti nauðsynlegt til að hafa hemil á mótmælendum. Talið er 41 hafi slasast, þar af tólf lögreglumenn.

Í stað þess að kveikja á kertum ákváðu nokkur hundruð mótmælenda að kveikja ljós á símum sínum í gær og lyfta þeim upp á sama tíma og þeir hvöttu borgarstjóra Hong Kong til að segja af sér.

Kínverjar segja mótmælin ólögleg og styðja aðgerðir stjórnvalda í Hong Kong til að stöðva þau.


Tengdar fréttir

Leiðtogi Hong Kong hvetur mótmælendur til að halda heim á leið

Æðsti embættismaður Hong Kong, CY Leung, hvatti í nótt mótmælendur til þess að halda til síns heima og láta þegar í stað af mótmælum sínum. Ekki verður orðið við þessari beiðni því á meðal krafna mótmælenda er einmitt að Leung sjálfur segi af sér embætti.

Lögreglan dregur sig í hlé í Hong Kong

Þúsundir mótmælenda eru nú á strætum Hong Kong borgar og hafa þeir tekið yfir fjármálahverfi borgarinnar og neita að yfirgefa svæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×