Erlent

Ólga og óeirðir í Ferguson

Óeirðir í Ferguson.
Óeirðir í Ferguson. Mynd/AP
Óeirðir brutust út í bænum Ferguson í Missouri í fyrrakvöld. Lögreglan notaði táragas og reyksprengjur til að dreifa mannfjöldanum, sem hafði kastað eldsprengjum í áttina að lögreglunni.

Dagleg mótmæli hafa verið í Ferguson frá því á laugardag, en þá lét 18 ára piltur lífið eftir að lögregluþjónn skaut á hann. Pilturinn var svartur á hörund og hét Michael Brown, en lögregluþjónninn er hvítur og hefur nafn hans ekki fengist uppgefið hjá stjórnvöldum.

Frásögn lögreglunnar af því sem gerðist ber ekki saman við frásagnir vitna. Lögreglan segir að lögregluþjónn hafi vikið sér að Brown og öðrum manni, en þeir hafi þá ráðist á lögregluþjóninn og reynt að taka af honum byssuna.

Dorian Johnson, sem segist hafa verið með Brown þegar lögreglan hafði afskipti af þeim, segir allt aðra sögu. Lögregluþjónninn hafi reynt að opna bíldyrnar en bílhurðin hafi verið svo nálægt þeim að hún hafi skellst til baka. Þetta hafi farið í taugarnar á lögreglumanninum og hann hafi gripið til byssu sinnar þegar Brown reyndi að hlaupa burt.

Anonymous, samtök tölvuþrjóta, nafngreindu í gær lögregluþjón og sögðu hann hafa skotið piltinn, en lögreglan í Ferguson fullyrðir að þar sé rangur maður nafngreindur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×