Íslenski boltinn

Ákvæði um mismunun reynist sumum félögum rándýrt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eyjamenn voru sektaðir fyrir kynþáttaníð í garð Farids Zato.
Eyjamenn voru sektaðir fyrir kynþáttaníð í garð Farids Zato. Fréttablaðið/Vilhelm
Ný grein, sú sextánda, í reglugerð KSÍ um aga- og úrskurðarmál hefur heldur betur látið á sig reyna á sínu fyrsta sumri í knattspyrnunni.

Í henni segir: „Hver sá sem misbýður öðrum einstaklingi eða hópi með fyrirlitningu, mismunun eða niðurlægingu í orði eða verki varðandi kynhneigð, kynferði, trúarbrögð, skoðanir, þjóðernisuppruna, kynþátt, litarhátt og stöðu að öðru leyti skal sæta leikbanni í að minnsta kosti fimm leiki.“

Nýja ákvæðið er þýðing á ákvæði í agareglugerð FIFA sem öllum

knattspyrnusamböndum innan FIFA ber að taka upp, en það felur í sér harðari viðurlög við hvers kyns mismunun.

Samtals hafa þrjú íslensk félög verið sektuð um 350.000 krónur, en þetta er margföld hækkun á sektum vegna mismununar sem má á einfaldari hátt kalla kynþáttaníð.

Fyrst var leikmaður Víðis í Garði úrskurðaður í fimm leikja bann í deildabikarnum fyrr í sumar fyrir að beita mótherja sinn kynþáttaníði og félagið sektað um 100.00 krónur. Sú tala meira en tvöfaldaðist svo í gær.

Þá var ÍBV sektað um 150.000 krónur fyrir kynþáttaníð stuðningsmanns félagsins í garð Farids Zato, leikmanns KR, og Víkingur í Ólafsvík fékk 100.000 króna sekt vegna framkomu Eyþórs Helga Birgissonar í garð aðstoðardómara í leik gegn Grindavík um síðustu helgi.

Sextánda greinin ætlar að reynast erfið veskjum gjaldkera sumra liða en að sama skapi mikilvæg fyrir íþróttina.

Viðurlögin við kynþáttaníði fyrir ekki meira en ári voru mun vægari. Ber að nefna að Keflavík fékk ekki nema 30.000 króna sekt fyrir kynþáttaníð stuðningsmanns liðsins í garð Tonnys Mawejje í september á síðasta ári, en það hefur lengi verið hámarkssekt knattspyrnusambandsins.

Það var ekki í fyrsta skipti sem leikmaður ÍBV varð fyrir barðinu á kynþáttaníði, en sumarið 2007 fékk Fjölnir sekt fyrir hegðan stuðningsmanna liðsins í garð Andrew Mwesigwa í 1. deildinni..

ÍBV nýtti því tækifærið í gær í yfirlýsingu sinni og fagnaði hversu hart væri tekið á málum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×