Erlent

Bandaríkjamenn geta ekki haldið áfram að „leika kúreka“

Bjarki Ármannsson skrifar
Félagar hins látna virða mínútu þögn fyrir minningarleik á miðvikudaginn.
Félagar hins látna virða mínútu þögn fyrir minningarleik á miðvikudaginn. Vísir/AP
Faðir sautján ára skiptinema sem skotinn var til bana í Montana-ríki í Bandaríkjunum síðastliðinn sunnudag gagnrýnir mjög skotvopnamenningu þar í landi. Hann segir Bandaríkjamenn ekki geta haldið áfram að „leika kúreka“.

Það er fréttaveitan AP sem greinir frá þessu. Diran Dede var Þjóðverji sem eytt hafði vetrinum við nám í bænum Missoula og átti að snúa heim til sín eftir einungis nokkrar vikur. Hann var skotinn í bílskúr manns að nafni Markus Kaarma sem hleypti af fjórum sinnum úr haglabyssu sinni þegar hann varð var við að Dede var þar inni. Ekki er víst hvað Dede var að gera á heimili Kaarma.

„Mig grunaði aldrei að hér gætu allir drepið einhvern fyrir það eitt að stíga inn í bakgarð manns,“ sagði Celal Dede, faðir Dirans, við komu til Bandaríkjanna. Hann sagði að hann hefði aldrei leyft syni sínum að taka þátt í skiptináminu hefði hann vitað það.

Á miðvikudagskvöld fór fram minningarleikur hjá fótboltaliði Dede í Hamborg, heimabæ hans. Hundruð manna mættu til að votta virðingu sína og héldu margir á myndum af hinum látna eða lögðu rósir á völlinn.

Kaarma hefur nú verið ákærður fyrir morð. Hann heldur fram sakleysi sínu og segist hafa óttast um líf sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×