Erlent

Farþegaflugvélin breytti um stefnu

Freyr Bjarnason skrifar
Starfsmenn Interpol á blaðamannafundi í gær þar sem myndin af Írönunum var birt.
Starfsmenn Interpol á blaðamannafundi í gær þar sem myndin af Írönunum var birt. Mynd/AP
Malasíski herinn segist hafa undir höndum sönnungargögn frá ratsjá sem sýnir að hin týnda Boeing 777-farþegaþotan hafi breytt um stefnu. Hún náði alla leið til Malaccasunds, hundruð kílómetra frá því svæði þar sem vitað var um síðustu ferðir hennar.

Rodzali Daud, yfirmaður malasíska flughersins, sagði að ratsjá á herstöð hafi komið auga á flugvélina skammt frá eyjunni Lulau Perak, sem er norðanmegin á sundinu. Annar háttsettur yfirmaður í hernum staðfesti fregnina og bætti við að allt benti til þess að vélin hefði verið í lágflugi.

Interpol sendi í gær frá sér mynd af tveimur Írönum sem ferðuðust með stolin vegabréf um borð í flugvélinni, sem ekkert hefur spurst til síðan á laugardaginn. Þeir heita Pouri Nourmohammadi, nítján ára, og Delavar Seyedmohammaderza, 29 ára. Talið er að nítján ára pilturinn hafi ætlað að sækja um hæli í Þýskalandi. Noble segir að miðað við þessar upplýsingar hafi dregið úr líkunum á því að flugvélin hafi horfið vegna hryðjuverka.

Ekkert brak úr flugvélinni hefur fundist. Malasísk yfirvöld höfðu stækkað leitarsvæði sitt í von um að finna vélina en munu nú einbeita sér að Malaccasundi. Að sögn flugfélagsins Malaysia Airlines sendu flugmennirnir ekki út neyðarkall, sem gefur í skyn að eitthvað hafi gerst í skyndi án þess að þeir hafi getað látið vita í tæka tíð.

Á meðal þess sem talið er að hafi gerst er að flugmennirnir hafi gert mistök, vélarbilun hafi orðið og að flugrán eða hryðjuverk hafi verið framið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×