Erlent

Samræður aldraðra bæta andlega og líkamlega heilsu

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Samræður eru heilsubót.
Samræður eru heilsubót. Fréttablaðið/Pjetur
Samkomur aldraðra, þar sem menn ræða um það sem fylgir því að eldast, og heimsóknir frá heimaþjónustu geta komið í veg fyrir heilsuvandamál hjá þeim sem eru eldri en 80 ára. Þetta eru niðurstöður rannsókna við Háskólann í Gautaborg.

Í rannsókninni tóku þátt 459 íbúar í Gautaborg sem skipt var í þrjá mismunandi hópa. Í einum hópnum tóku einstaklingarnir þátt í samkomum aldraðra þar sem meðal annars var rætt um það sem fylgir því að eldast og hvernig leysa megi vandamál sem koma upp heima fyrir. Annar hópur fékk heimsóknir frá heimaþjónustu þar sem rætt var við einstaklingana um heilsu þeirra og þörf fyrir umönnun og þjónustu. Þriðji hópurinn fékk hefðbundnar upplýsingar um hvaða úrræði sveitarfélagið býður upp á.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að líkindin á heilsufarslegum vandamálum minnkuðu um helming í allt að tvö ár hjá þeim sem tóku þátt í samkomum aldraðra eða fengu heimsókn. Þeir voru jafnframt ánægðari með líkamlega og andlega heilsu sína eftir eitt og tvö ár.

Mestur árangur var af samkomum aldraðra, að því er haft er eftir Linu Behm hjúkrunarfræðingi á vef Dagens Nyheter. Á samkomunum var það reynsla þátttakenda sjálfra og þarfir þeirra sem stýrðu umræðuefninu en ekki „stjórnendur samræðnanna“. Að sögn Behms kváðust þátttakendur hafa lært hverjir af öðrum. Það hefði haft jákvæð áhrif á þá og mögulega hvatt þá til meiri virkni.

Fyrri rannsóknir hafa leitt í ljós að aldraðir sem líta svo á að þeir séu heilbrigðir eru í minni hættu á að fá þunglyndi auk þess sem líkurnar á að þeir lifi lengur eru meiri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×