Erlent

Andstæðingar hjónabanda samkynhneigðra grípa til varna

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Roy Moore á kosningafundi ásamt eiginkonu sinni.
Roy Moore á kosningafundi ásamt eiginkonu sinni. Vísir/AP
Í Bandaríkjunum er íhaldssömum andstæðingum þess að samkynhneigðir geti gengið í hjónaband hætt að lítast á blikuna, eftir að vígi þeirra hafa fallið í hverju ríkinu á fætur öðru.

Nú berjast þeir meðal annars fyrir því að stjórnarskrá Bandaríkjanna verði breytt, þannig að í nýjum viðauka verði hjónaband skilgreint þannig að það geti einungis verið milli eins karls og einnar konu.

Roy Moore, yfirdómari hæstaréttar Alabamaríkis, hefur ritað ríkisstjórum allra ríkja Bandaríkjanna bréf og hvatt þá til þess að styðja slíka stjórnarskrárbreytingu.

Þá hafa átta þingmenn Repúblikanaflokksins á ríkisþinginu í Missouri kært Jay Nixon ríkisstjóra til embættismissis, en Nixon hefur skipað embættismönnum sínum að fallast á sameiginleg skattframtöl samkynhneigðra para sem hafa gengið löglega í hjónaband í öðrum ríkjum Bandaríkjanna.

Einnig hefur víða verið reynt að ná því fram, í lagasetningu eða kosningum, að fyrirtæki og stofnanir geti neitað að þjónusta samkynhneigð hjón af trúarlegum ástæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×