Erlent

Gleymdist að fangelsa hann í þrettán ár

Samúel Karl Ólason skrifar
Cornelalious Anderson ásamt fjölskyldu sinni á leið úr réttarsal.
Cornelalious Anderson ásamt fjölskyldu sinni á leið úr réttarsal. Vísir/AP
Cornelalious Anderson slapp við 13 ára fangelsisvist vegna mannlegra mistaka. Þegar mistökin komu upp í fyrra var hann þó færður í fangelsi, en var frelsaður í dag, eftir tæpa ársvist. Dómari í Missouri í Bandaríkjunum ákvað að frelsa hann eftir tíu mínútna réttarhöld.

Alls liðu 4,794 dagar frá því að Anderson var sakfelldur fyrir rán árið 2000. Starfsmaður réttarins gleymdi þó að tilkynna að hann hafi verið látinn laus á tryggingu eftir sakfellinguna. Þegar fangavist hans átti að ljúka í júlí í fyrra uppgötvaðist að hann hafi aldrei setið í fangelsi.

Einn morguninn keyrðu átta lögreglumenn upp að heimili hans í úthverfi og færðu hann í fangelsi, en þaðan losnaði hann í dag.

Frá þessu segir AP fréttaveitan.

Anderson var 23 ára þegar hann var sakfelldur fyrir þátttöku í að ræna starfsmann skyndibitakeðju. Hann sagði AP að fyrstu árin hafi hann beðið eftir því að vera settur í fangelsi og jafnvel spurst fyrir um hvenær af því yrði. Aldrei kom þó að þeim degi.

Síðan þá stofnaði Anderson verktakafyrirtæki, gifti sig og eignaðist dóttir. Hann hefur einnig þjálfað börn í amerískum fótbolta og unnið í sjálfboðavinnu í kirkju.

Við réttarhöldin sagði lögfræðingur hans að á þeim árum síðan hann hafi verið sakfelldur hafi Anderson snúið lífi sínu við og afrekað það sem hegningakerfinu mistakist oft.

Dómarinn var því sammála og sagði að þrátt fyrir að glæpur hans hafi verið alvarlegur, sé Anderson allt annar maður en hann var árið 2003.

„Þú hefur verið góður faðir, góður eiginmaður og góður skattgreiðandi í ríkinu Missouri. Ég held að þú sért góður og breyttur maður,“ sagði dómarinn Terry Lynn Brown.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×